Jákvæður agi

Hvað er Jákvæður agi?

Jákvæður agi er uppeldisstefna sem verið er að innleiða í Gerðaskóla. Innleiðingarferlið tekur rúmlega 2 ár og er ferlið u.þ.b. hálfnað við upphaf skólaárs 2021.

Jákvæður agi er:

  • Uppeldisstefna sem byggir á sjálfsákvörðunarkenningum
  • Hugmyndafræði sem byggist á jákvæðum samskiptum og gagnkvæmri virðingu
  • Að sýna góðvild og festu á sama tíma
  • Hluti af öllu skólastarfinu

Stefnan byggir á nokkrum grunnþáttum:

  • Það sem stýrir hegðun er þörfin fyrir að tilheyra og skipta máli
  • Við höfum mest áhrif þegar við eigum samskipti sem byggja á gagnkvæmri virðingu
  • Áhrifamestu verkfærin eru samkennd, skilningur, lausnaleit, góðvild og festa
  • Nám fer fram þegar manneskjan upplifir tilgang, sjálfsstjórn og þátttöku
  • Allir eiga rétt á virðingu og reisn

Ef við ætlum að hafa áhrif á hegðun, þurfum við að byrja á því að finna út hvað liggur að baki henni.

Okkur gengur betur þegar okkur líður betur.

Nám og færni í grunnskólanum.

Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla eru fjölmargir náms- og færniþættir sem nemendum er ætlað að læra á skólagöngu sinni fyrir utan allt námsefni. Í námskránni eru tilgreindir sex grunnþættir menntunar; Læsi, Sjálfbærni, Lýðræði og mannréttindi, Heilbrigði og velferð, Jafnrétti og Sköpun. Innan þessara grunnþátta og jafnvel utan þeirra líka er margt sem foreldrar, kennarar og samfélagið hefur væntingar um að nemendur tileinki sér í skólanum. Dæmi um slíka þætti gæti verið sjálfstraust, tilfinningavitund, félagsfærni og samskiptahæfileikar, dómgreind, ábyrgð, þrautseigja og lausnaleit. Til þess að nemendur öðlist færni á þessu sviði er mikilvægt að bæði í skólasamfélaginu og heima fyrir hafi nemendur góðar fyrirmyndir sem gefa leiðbeinandi skilaboð, láta barnið finna fyrir því að það tilheyri, kenni með góðvild og festu í stað þess að skamma og lítilsvirða.

Mistök eru frábær tækifæri til að læra!

Nánar um uppruna og fræðin að baki Jákvæðs aga (eftir Dr. Jane Nelsen).

Jákvæður agi byggir á vinnu og kenningum Alfred Adler og Rudolf Dreikurs. Þeir áttuðu sig á gríðarlegu mikilvægi þess að allir fái upplifað virðingu og reisn - líka börn.

Allt efni sem viðkemur Jákvæðum aga, lesefni, annað fræðsluefni og námskeið, miðast við að færa foreldrum, kennurum og öðrum sem koma að uppeldi barna í hendur aðferðir sem hvetja og efla börn og fullorðna. Jákvæður agi hjálpar þeim að öðlast víðtæka félagsfærni og efla lífsleikni án þess að byggja á refsingum.

Aðferðir Jákvæðs aga byggjast á:

  • Að sýna alltaf væntumþykju og virðingu. Leitast þannig við að tengjast börnunum til að betur gangi að leiðrétta hegðun þegar þess þarf. (Connection before correction)
  • Að sýna góðvild og festu á sama tíma. (Kind and firm)
  • Að sjá mistök sem frábær tækifæri til náms.
  • Að aðstoða börnin við að kanna valkosti og afleiðingar (með opnum spurningum) í stað þess að setja upp afleiðingar (oft dulbúnar refsingar) til að láta þau gjalda fyrir mistök sín.
  • Að einbeita sér að lausnum og hafa börnin með í ráðum. Þannig eru þau viljugri til að fylgja þeim reglum sem settar eru eða leiðum sem eru markaðar og öðlast mikilvæga færni í leiðinni. Þetta má t.d. gera með því að:

           o Bjóða börnum að aðstoða við að búa til “rútínukort” t.d. varðandi háttatíma, matartíma, morgunverk, húsverk o.s.frv.

           o Halda fjölskyldufundi og bekkjafundi til að kenna þrautalausnir, samskiptahæfni og margt annað sem fellur undir nauðsynlega  lífsleikni.

           o Bjóða börnum að útbúa “lausnahjól” sem inniheldur nokkra möguleika til að fást við algenga erfiðleika t.d. í samskiptum. Börnin geta svo valið                     þá lausn sem þau telja að hjálpi þeim best hverju sinni.

  • Að forðast neikvæða einveru og útilokun í formi refsingar en bjóða börnunum þess í stað að útbúa svæði fyrir “jákvæða einveru” þar sem þau geta róað sig niður og látið sér líða betur þegar þröf er á. (Að kunna að róa sig niður gæti reyndar einnig gagnast mörgum fullorðnum..)
  • Að skyggnast inn í heim barnsins. Að skilja að barn sem hegðar sér illa er óöruggt og kann ekki réttar leiðir til að ná markmiðum sínum. Að grafast fyrir og vinna með það sem er á bak við hegðunina.
  • Að skilja sjálfan sig og sína hegðun. Kunna skil á eigin viðbrögðum og hvað þau geta kallað fram hjá öðrum.
  • Að hafa alltaf gagnkvæma virðingu í hávegum.
  • Að halda sífellt áfram að auka þekkingu sína og öðlast meiri færni til samskipta sem einkennast af reisn og virðinu.

Fimm skilyrði fyrir því að uppeldisaðferðir falli undir Jákvæðan aga:

  1. Finna börnin fyrir tengslum og að þau skipti máli? (Belonging and Significance)
  2. Einkennist uppeldið af virðingu og hvatningu? (Kind and firm at the same time)
  3. Hefur það jákvæð áhrif til lengri tíma? (Refsingar geta t.d. virkað til skemmri tíma en hafa neikvæðar afleiðingar til lengri tíma.)
  4. Erum við að kenna mikilvæga félagsfærni og lífsleikni? Erum við góðar fyrirmyndir?
  5. Fá börnin tækifæri til að uppgötva og þroska eigin styrkleika? Hvetjum við þau til að leysa málin á eigin spýtur?

Jákvæður agi heimasíða

Teymið okkar skipa:

Arnrún Björk Kristinsdóttir

Íris Anna Arnarsdóttir

Laufey Erlendsdóttir

Sigurrós Ösp Rögnvaldsdóttir