Nemamót og lýðræði

Nemamót og lýðræði í Gerðaskóla

Verkefnið felur í sér innleiðingu nemendalýðræðis í Gerðaskóla þar sem aðaláherslan er á að efla starfsemi nemendafélags skólans, þjálfa nemendur til lýðræðislegrar þátttöku í þróun skólastarfsins og veita nemendum tækifæri til þess að hafa meiri áhrif á skólasamfélagið. Með innleiðingunni er gert ráð fyrir að nemendalýðræði verði að virkum þætti skólastarfs í gegnum svökölluð Nemamót nemenda og stjórnenda, öfluga starfsemi nemendafélags og aukið samstarf við Eldingu, félagsmiðstöðina í Garði.

Verkefnið miðar að því að efla lýðræði í starfi með nemendum í takt við grunnþætti menntunar sem birtast í Aðalnámskrá grunnskóla (2011). Í virku nemendalýðræði taka nemendur þátt í að móta og hafa áhrif á samfélagið innan skólans. Með því að skapa aðstæður fyrir nemendur til þess að koma skoðunum sínum á framfæri á gagnrýnan og uppbyggilegan hátt gefst tækifæri til þess að efla ábyrgð þeirra og virkni í skólasamfélaginu. Skólum ber að rækta það viðhorf að samfélagið eigi að vera lýðræðislegt og einstaklingarnir gagnrýnir og virkir í lýðræðissamfélagi (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti 2011, bls.11).

Markmið

Markmið verkefnisins er að nemendur kynnist lýðræði með þátttöku á Nemamótum, í gegnum fræðslu og þjálfun, með því að leiðbeina yngri nemendum og taka þátt í samstarfi við stofnanir innan sveitarfélagsins. Lögð er áhersla á að nemendur fái að koma hugmyndum sínum á framfæri og fylgja þeim eftir til framkvæmdar um leið og þeir hafa áhrif á skólasamfélagið sem þeir tilheyra. Í gegnum verkefnið ættu nemendur að öðlast reynslu af því að hlusta á og bera virðingu fyrir skoðunum annarra og að færa rök fyrir eigin skoðunum. Í ferlinu er mikilvægt að nemendur fái tækifæri til að taka þátt í raunverulegu lýðræði og að þeir komi skoðunum sínum óhindrað á framfæri, án stýringar kennara, eins og hægt er.

Samræða og samvera á Nemamótum er til þess fallin að efla skilning og tengingu innan skólans; að nemendur skilji betur hver annan sem einstaklingar og hluti af bekk; að nemendur og stjórnendur fái betri innsýn í hugarheim og hugmyndir hvers annars um skólasamfélagið og nærumhverfi sitt. Þannig má stuðla að skilningsríkara samfélagi innan skólans þar sem lýðræði felst í því frelsi að hver og einn fái að lifa og starfa á sínum forsendum (Ólafur Páll Jónsson og Þóra Björg Sigurðardóttir, 2012).

Hagnýtt markmið verkefnisins er að þróa og styrkja virkt nemendalýðræði í Gerðaskóla með þróun Nemamóta, þjálfun til þátttöku í nemendafélagi og auknu samstarfi við félagsmiðstöð. Innan skólans starfar nemendafélag sem fundar hálfs mánaðarlega og saman stendur af tíu nemendum í 7.-10.bekk. Verkefninu er ætlað að efla starf nemendafélagsins svo það verði markvissara og nemendur fái betri undirbúning fyrir starf í félaginu.

Nemamót

Nemamótin eru nýjung í Gerðaskóla og eru hugsuð á þann hátt að nemendur í 6. – 10. bek þátt í Nemamóti tvisvar sinnum á skólaárinu. Undirbúningur fyrir nemamót fer fram með umsjónarkennara í umsjónartímum. Skólinn vinnur eftir hugmyndafræði Jákvæðs aga þar sem haldnir eru bekkjarfundir reglulega en með verkefninu yrði sú vinna þróuð enn frekar. Lögð er áhersla á að nemendur sjálfir ráði ferðinni með leiðbeiningum frá umsjónarkennara. Bekkurinn undirbýr hugmyndir, spurningar og út frá umræðuefni hverju sinni, tekur ákvörðun um það með hvaða hætti upplýsingum er komið á framfæri, velur sér fulltrúa til þess að tala máli sínu o.s.frv. Þátttakendur á Nemamóti eru viðkomandi bekkjardeild, stjórnendur, námsráðgjafi og fulltrúi nemendaráðs sem myndu rita fundargerð og safna saman upplýsingum eftir mótið. Stjórnendur og nemendafélag vinnur svo úr þeim ábendingum og hugmyndum sem berast mótinu, eftir því sem við á hverju sinni. Bekkirnir fá einnig tækifæri til þess að fylgja hugmyndum sínum eftir. Hér er tækifæri til frekari þróunar t.d. með því að skoða samskiptáætlun skólans með nemendum, skólareglur eða annað sem lýtur að formlegu starfi skólans.

 

Áætlaður afrakstur

Áætlaður afrakstur verkefnisins er þríþættur. Í fyrsta lagi þróun Nemamóta sem fara fram tvisvar sinnum á skólaárinu, í október og febrúar. Þar gæfist nemendum tækifæri til að koma með tillögur og athugasemdir m.a. um skólastarfið og námið. Í öðru lagi virkt og aðgengilegt nemendafélag þar sem þjálfun til starfa innan þess væri í boði fyrir nemendur. Í þriðja lagi aukið samstarf á milli skólans og félagsmiðstöðvarinnar. Þar gefst tækifæri fyrir aukin vinskap, sameiginlega viðburði og þjálfun í þverfaglegri teymisvinnu.