Heimanámsstefna Gerðaskóla

Það er stefna Gerðaskóla að setja fyrir heimavinnu. Það eru þrír hópar sem mynda skólasamfélagið í hverjum skóla; nemendur, starfsfólk skólans og foreldrar. Mikilvægt er að þessir hópar vinni vel saman að mótun skólasamfélagsins. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimilis og skóla. „Foreldrar bera ábyrgð á því að börnin þeirra sinni því heimanámi sem skólinn og foreldrar hvers einstaks barns hafa orðið ásátt um og að frístundastarf og annað starf utan skóla komi ekki niður á námi barnanna.“ (Aðalnámskrá grunnskóla. Almennur hluti 2011).

Markmið með heimanámi er:

 • Að nemendur rifji upp, ígrundi og þjálfi það sem þeir hafa lært í skólanum.
 • Að auka sjálfstæði nemenda og ábyrgð á eigin námi.
 • Að þjálfa skipulagsfærni.
 • Að gefa foreldrum/forráðamönnum tækifæri til að taka þátt í og fylgjast með námi barna sinna.

Áætlaður tími sem fer í heimanám:

Það fer eftir aldri hve nemendur geta einbeitt sér lengi í einu og einnig er það einstaklingsbundið. Ef foreldrum/forráðamönnum finnst fara óeðlilega mikill tími heimanám þá er mjög mikilvægt að ræða málin strax við kennara og leita lausna.

 • 1.bekkur – 10-15 mínútur að meðaltali á dag, fimm daga vikunnar.
 • 2.-3.bekkur – 20-30 mínútur að meðaltali á dag, fimm daga vikunnar.
 • 4.-5.bekkur – 30-40 mínútur að meðaltali á dag, fimm daga vikunnar.
 • 6.-7.bekkur – 45-60 mínútur að meðaltali á dag, fimm daga vikunnar.
 • 8.-10.bekkur – 6 klukkustundir að meðaltali á viku.

Þar fyrir utan er heimalestur, bæði í lestrarbókum og frjálslestrarbókum.

Lestur er undirstaða alls náms og því er heimalestur afar mikilvægur og á að vera skemmtilegur. Til að ná góðum árangri í lestri er mjög mikilvægt að barnið lesi upphátt heima alla virka daga.

Hlutverk kennara, nemenda og foreldra/forráðamanna varðandi heimavinnu

Kennarar:

 • Setja fyrir og hafa eftirlit með að heimavinna sé unnin
 • Fara yfir heimavinnu og gefa nemendum endurgjöf.
 • Sjá til þess að heimavinna sé við hæfi nemenda.

Nemendur:

 • Ljúka við heimavinnu á tilsettum tíma.
 • Leggja sig jafn vel fram við heimavinnu og aðra skólavinnu hvað varðar frágang og viðleitni.

Foreldrar/forráðamenn:

 • Fylgjast með og hjálpa barni sínu að ljúka við heimanám á réttum tíma.
 • Styðja við bakið á barni sínu og hvetja það áfram við námið.
 • Láta kennarann vita ef heimavinna er ekki við hæfi nemenda (til dæmis of létt/of erfið).

 

Upplýsingar um heimanám:

 • Kennarar færa alla heimavinnu inn á Mentor. Hún er aðgengileg í dagatalinu.