Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir

Móttökuáætlun Gerðaskóla – nemendur með sérþarfir

Markmiðið með áætluninni er að stuðla að árangursríkri móttöku nemenda með sérþarfir og tryggja að undirbúningur og framkvæmd aðlögunar sé eins og best verður á kosið.

Miðlun upplýsinga:
Deildarstjóri leitar eftir að allar skýrslur frá sérfræðingum komi í skólann og eins að fá upplýsingar frá þeim skóla/leikskóla sem barnið kemur frá. Deildarstjóri ásamt umsjónarkennara sjá til þess að sérgreinakennarar og aðrir kennarar sem koma að nemandanum fái viðeigandi upplýsingar um nemandann. Umsjónarkennari og deildarstjóri stofna teymi um nemandann sem í sitja fyrrgreindir aðilar ásamt foreldrum og stuðningsfólki. Deildarstjóri athugar hvort málið sé í samþættingu. Ef svo er ekki er skoðað hvort það ætti að vera þar. Ef málið fer í samþættingu stýrir málstjóri frá félagsþjónustunni/barnavernd reglulegum fundum.

Samfella milli leik- og grunnskóla:
Samvinna er milli Gerðaskóla og leikskólans Gefnarborg. Sú samvinna byggir á heimsóknum verðandi grunnskólabarna í skólann og fundum milli kennara í 1. bekk og leikskólakennara. Að vori hittast umsjónarkennarar, deildarstjóri sérkennslu/stjórnandi ásamt sérkennara/deildarstjóra leikskólans. Á þessum fundi er farið yfir málefni einstakra nemenda sem eru að hefja nám að hausti. Á fundinum fær skólinn afhentar greiningar og önnur trúnaðargögn hvers barns með vitund foreldra.

Skipulag sérkennslu/stuðnings:
Deildarstjóri skipuleggur sérkennslu/stuðning í samráði við sérkennara/þroskaþjálfa. Stefna skólans er einstaklingsmiðað nám. Stuðningskennsla getur varað í stuttan tíma á meðan sérkennsla getur varað út alla skólagönguna. Sérkennslan fer fram innan bekkjar eða í námsveri eftir því hvað hentar nemendum best, ýmist í hópum eða einstaklingslega. Sérkennari/þroskaþjálfi ber megin ábyrgð á kennslunni og vinnur náið með umsjónarkennara, foreldrum og deildarstjóra.

Einstaklingsmarkmið:
Umsjónarkennari og sérkennari/þroskaþjálfi bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár þar sem tekið er mið af greiningum og þjónustuþörf viðkomandi nemanda, óskum foreldra og mati starfsmanna á hverjum tíma. Í námskránni koma fram markmið og leiðir í kennslu nemandans sem miðast við að efla færni hans. Einnig skal koma fram hvernig námsmati er háttað, samvinna við foreldra og hvaða námsefni er unnið með. Námskráin telst ekki gild nema undirskrift foreldra liggi fyrir. Einstaklingsnámsskrár eru geymdar í sérstökum skjalaskáp sem hefur að geyma trúnaðarupplýsingar um nemendur. Þar er hægt að skoða námsferil nemanda. Námsmat sérkennslunemanda er með öðrum hætti en annarra nemenda. Þar kemur fram að hve miklu leyti nemandinn hefur náð settum markmiðum einstaklingsnámskrár hvort heldur sem um er að ræða námsmarkmið eða markmið er varða félagsfærni, hegðun, færni og þátttöku í athöfnum daglegs lífs.

Hjálpartæki:
Í hverju tilfelli fyrir sig er metið hvaða hjálpartæki gagnast fyrir nemanda, s.s. tölva, forrit og annar búnaður. Sérkennari/þroskaþjálfi þarf að vera ráðgefandi til foreldra varðandi t.d. forrit, hljóðbækur og annað sem kann að gagnast nemanda við nám og þjálfun. Ef mælt er með sérstökum búnaði er reynt að útvega hann í samráði við skólayfirvöld.

Samstarf við foreldra:
Teymisfundir eru haldnir eftir þörfum þar sem umsjónarkennari, deildarstjóri sérkennslu og/eða skólastjórar, foreldrar og þjónustuaðilar utan skólans, þegar við á, hittast og fara yfir stöðu mála. Fundargerð skal ávallt gera og setja í persónumöppu barnsins.

Samstarf innan skólans:
Reglulega eru haldnir fundir um málefni einstakra nemenda (lausnateymi og nemendaverndarráðsfundir). Fundina sitja aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri, náms- og starfsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, kennsluráðgjafi og ráðgjafi frá félagsþjónustu sem jafnframt er tengiliður við barnavernd. Á þeim fundum er farið yfir mál einstakra nemenda, þeim vísað til frekari úrvinnslu og úrræða leitað. Aðrir sérfræðingar og umsjónarkennarar eru kallaðir inn eftir þörfum.

Ráðgjöf og aðrir sérfræðingar:
Aðilar sem koma að frekari greiningu og ráðgjöf eru skólasálfræðingur, talmeinafræðingur, kennsluráðgjafi á vegum Fræðsluþjónustu, deildarstjóri skólans ásamt þroskaþjálfum. Í kjölfar greiningar er haldinn skilafundur með foreldrum sem fá ráðgjöf en í skólanum er námið lagað að þörfum nemanda eftir atvikum. Eintak af greiningarniðurstöðum er geymt í skóla. Mikilvægt er að greiningargögn fylgi barni þegar það yfirgefur skólann en skóli og foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á því að koma gögnum í annan skóla. Foreldrar bera ábyrgð á að koma gögnum til framhaldsskóla. Stundum getur reynst nauðsynlegt að leita til ráðgjafa Sjónstöðvar, Heyrna- og talmeinastöðvar, Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Barna- og unglingageðdeildar. Skólastjórar og/eða deildastjórar eru þar milliliðir nema málið sé í samþættingu þá sér málstjóri um að fá upplýsingar á mismunandi stöðum.

Félagsleg þátttaka:
Skólinn vinnur samkvæmt stefnu jákvæðs aga. Umsjónarkennarar eru vakandi hverju sinni yfir félagslegum tengslum nemenda. Nemendur sem standa höllum fæti félagslega er liðsinnt um vinatengsl t.d með viðtölum við náms- og starfsráðgjafa. Gerðar eru reglulegar tengslakannanir í bekkjum samkvæmt samskiptaáætlun. Eineltisteymi er virkjað í málum barna sem eru einangruð eða eru talin lögð í einelti. Önnur félagstengsl utan skóla eru í höndum foreldra hvers barns.