Vel heppnað skólaþing Gerðaskóla

Þann 30. mars síðastliðinn var haldið skólaþing í Gerðaskóla. Markmið með skólaþinginu voru að efla skólasamfélagið, skapa vettvang til að koma hugmyndum á framfæri og efla skólastarfið. Yfirskrift þingsins var spurningin hvað einkennir góðan skóla? En út frá þeirri spurningu voru þættirnir umhverfi, kennsluhættir, samstarf heimilis og skóla og námsumhverfi skoðaðir.

Stefnt er að því að skólaþing Gerðaskóla verði árlegur viðburður og hlökkum við til að fá foreldra og aðra áhugasama til okkar næsta vetur. Við munum einnig bjóða nemendum á sérstakt skólaþing í maí þar sem 6. – 9. bekkur koma hugmyndum sínum og vangaveltum á framfæri.

Þátttaka var nokkuð góð á þinginu og var frábært að sjá hversu góðar og fjölbreyttar umræður sköpuðust. Lagt var upp með að horfa til framtíðar, skoða það sem vel er gert í dag, hvað mætti bæta og hvernig skólasamfélagið; foreldrar, starfsfólk og nærsamfélagið, gæti unnið saman að því að skapa framúrskarandi skóla og námsumhverfi.

Á þinginu fengu þátttakendur tækifæri til þess að velta spuningunum fyrir sér hver fyrir sig og svo í minni hópum. Í lokin var hugmyndum og umræðupunktum safnað saman og forgangsraðað. Hugmyndirnar verða svo allar skoðaðar og nýttar við gerð starfsáætlunar skólans sem birt er á heimasíðu Gerðaskóla hvert haust. Einnig mun skólinn koma á framfæri þeim atriðum sem ná til sveitarfélagsins.

Ýmsar góðar hugmyndir komu fram svo sem varðandi nýtingu og skipulag á skólalóð, hvernig nýta mætti umhverfi í kringum skólann, skapa hlýlegt umhverfi innan skólans, efla útikennslu og nýta fjölbreyttar leiðir til þess að koma til móts við þarfir nemenda. Meðfylgjandi mynd sýnir þær hugmyndir og umræðupunkta sem mestan hljómgrunn hlutu en hægt að skoða alla punktana sem hóparnir töldu mikilvægastir hér: Skólaþing Gerðaskóla – hugmyndir og umræðupunktar

Hægt er að skoða myndir hér