Ný löggjöf um samþættingu í þágu barna.

Þann 1. janúar 2022 tók í gildi ný löggjöf um samþættingu þjónustu í þágu barna eða svokölluð farsældarlög. Meginmarkmið laganna er að veita snemmtæka íhlutun og að allir sem að barninu koma tali saman. Er sveitarfélögum ætlað þrjú til fimm ár til að innleiða slíkt fyrirkomulag. Þeir sem bera ábyrgð samkvæmt lögum þessum skulu:

Fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra og meta þörf fyrir þjónustu.

Bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu á skilvirkan hátt um leið og þörf krefur.

Hafa samráð sín á milli með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt í þágu velferðar og farsældar barna og foreldra.

Innleiðing laganna

Innleiðingarvinna í Suðurnesjabæ hófst í september 2021 og ber verkefnið heitið „Við saman“. Þá var ráðinn verkefnastjóri, ásamt því voru ráðnir utanaðkomandi ráðgjafar frá RR-ráðgjöf nú KPMG til að koma samþættingunni vel af stað. RR-ráðgjöf var með tvær vinnustofur með starfsmönnum Suðurnesjabæjar og Voga, sem vinna með börnum. Vinna RR ráðgjafar var á tímabilinu janúar til maí 2022. Markmiðið var að draga fram alla þjónustuþætti sem í boði eru fyrir börn og fjölskyldur hjá sveitarfélögunum, flokka þá og skilgreina hvaða þjónustuþættir falla undir hvert þjónustustig. Lagt var mat á hvaða þjónustuþættir falla saman á hverju stigi. Á grunni þeirrar greiningar var lagt mat á hvaða breytingar væri nauðsynlegar til að styðja við nýtt verklag í stigsskiptri þjónustu til farsældar fyrir börn. Í kjölfarið hélt Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur vinnustofu sem bar heitið „ að vinna sigra saman“ fyrir sama hóp. Var markmiðið að þétta hópinn enn meira saman.

Um mitt ár 2022 var settur saman verkefnishópur til að styðja við innleiðingu, Fulltrúar í verkefnishópnum eru verkefnastjóri „Við saman“, sviðsstjóri Fjölskyldusviðs og deildarstjórar í félags-, fræðslu- og íþrótta og tómstundasviði.

Stigskipting þjónustu

Í lögunum er kveðið á um stigskiptingu á þjónustu. Þannig er gert ráð fyrir að öll þjónusta í þágu farsældar barna sé veitt á þremur þjónustustigum. Fyrsta stigið er aðgengileg öllum börnum og foreldrum en um er að ræða einstaklingsbundinn snemmtækann stuðning. Þó hefð sé fyrir því hjá Suðurnesjabæ og Vogum að veita snemmtækann stuðning jafnt í leik, grunn- og framhaldsskóla sem og hjá Fjölskyldusviði þá er alltaf hægt að gera betur svo að öll börn í sveitafélaginu geti notið sín á eigin forsendum og fái tækifæri til að eiga góða æsku.

Fyrsta stigið er nýnæmi í lögum og verður mesta kerfisbreytingin þar (úrræði í skóla, ungbarnavernd). Á öðru stigi er markvissari einstaklingsþjónusta (liðveisla, uppeldisleg ráðgjöf) og á þriðja stigi er þjónustan orðin mun sérhæfðari (barnaverndarvinnsla). Eins og áður sagði tekur innleiðing nýs verklags um 3-5 ár og ef hún heppnast vel þá munum við eftir einhver ár sjá fækkun í alvarlegri málum er varða börn.

Snemmtæk íhlutun

Úttekt var gerð af RR ráðgjöf á þjónustu í sveitarfélaginu og er þjónustan í Suðurnesjabæ og Vogum almennt talin góð og nálgun snemmtækrar íhlutunar notuð nú þegar. Gott samstarf er við leik- og grunnskóla og mikið er um teymisvinnu í málum barna sem þurfa stuðning. Þjónustan hefur verið byggð upp með þeim hætti að mynduð hafa verið teymi með foreldrum barns og fulltrúum þjónustuaðila hverju sinni. Teymið metur í sameiningu hvaða þjónustu barnið þarf og hvort þörf er á greiningu eða sértæku mati. Í mörgum tilfellum er teymisvinna farin af stað meðan barnið er enn í leikskóla enda markmiðið að grípa sem fyrst inn í svo þörfin verði minni síðar og barnið nái að njóta bernskunnar. Frekari upplýsingar um farsæld barna er inná heimasíðum Suðurnesjabæjar og Voga.

Höfundur er Sara Dögg Eiríksdóttir, félagsráðgjafi og verkefnastjóri „Við saman“