Borin er virðing fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum nemenda í Gerðaskóla - Ytra mat Menntamálastofnunar

Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati grunnskóla á Íslandi. Matsaðilar komu í Gerðaskóla fyrir jól og lögðu mat á starfsemi skólans. Matsaðilar sátu 28 kennslustundir ásamt því að ræða við rýnihópa nemenda, foreldra, kennara, almennra starfsmanna og stjórnendur.

Matsaðilar sögðu stjórnendur hafa forystu um að mótuð sé sýn og stefna skólans. Sýn skólans endurspeglar áherslu á rétt allra nemenda til náms á eigin forsendum. Í öllum rýnihópum kom fram að í daglegu tali og fréttaflutningi leggja stjórnendur áherslu á það jákvæða í skólastarfi. Það kom einnig fram í rýnihópum að starfsfólk lítur á starfsmannahópinn sem liðsheild þar sem hver og einn er mikilvægur og að lýðræðisleg vinnubrögð einkenni samstarfið í skólanum. Matsaðilar voru mjög ánægðir með starf skólans og voru nánast allar kennslustundirnar metnar góðar eða frábærar. Kennarar sýndu fagmennsku og góða bekkjarstjórn. Matsaðilar sögðu skólann leggja sérstaka áherslu á jákvæð viðhorf til fjölbreytileikans og þar með viðurkenningu og þátttöku allra nemenda og styrkleika hvers og eins. Það kemur fram í starfsháttum og aðbúnaði í skólanum. Þetta kemur einnig fram í fjölbreyttum stuðningi innan bekkjarhópa og sérúrræðum svo sem Friðgarði, námsveri og velferðarkennslu. Litið er á stuðning við nemendur sem hluta af og eðlilegan þátt í daglegu skólastarfi.

Allt verklag skólans var metið gott eða mjög gott. Starfsmenn fagna þessari úttekt. Það er gott að fá viðurkenningu á góðu starfi og tækifæri til umbóta. Á vorönn munu starfsmenn skólans yfirfara skýrsluna vel og gera umbótaáætlun fyrir þá þætti sem væri hægt að gera enn betur.

Við hvetjum alla til að lesa skýrsluna í heild sinni hér.

Hér að neðan sjáið þið skólaprófíl Gerðaskóla: