Viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur

Fulltrúar Gerðaskóla tóku á móti viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í lestrarkeppni grunnskólanna við hátíðlega athöfn á Bessastöðum nú í vikunni. Skólinn tók einnig þátt í þessu mikilvæga verkefni í fyrra og var þá meðal efstu grunnskóla á landinu.

Lestrarkeppnin var haldin dagana 20. til 26. janúar síðastliðinn og var þátttaka í keppninni frábær. Alls lásu 406 keppendur alls 89.336 setningar fyrir hönd Gerðaskóla. Í heildina lásu 5.652 þátttakendur um 1,3 milljónir setningar fyrir hönd 118 skóla.

Veitt voru verðlaun til skólanna sem voru í fyrsta sæti í sínum flokki, auk þess fengu þrír skólar sem lásu mest þvert á flokka þar á eftir viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur. Skólarnir sem sigruðu sína flokka voru Salaskóli, Smáraskóli og Höfðaskóli. Skólarnir sem fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur voru Sandgerðisskóli, Öxarfjarðarskóli og Gerðaskóli.

Þeir nemendur sem tóku á móti viðurkenningu fyrir hönd Gerðaskóla voru Fannar Logi Sigurðsson og Magdalena María Kjartansdóttir. Þau eru bæði nemendur í 9. bekk. Allir keppendur eiga hrós skilið fyrir sitt framlag til keppninnar og íslenskrar tungu.

Hægt er að skoða fleiri myndir hér