Þemadagar

Dagana 31. maí til 2. júní voru skemmtilegir þemadagar haldnir í Gerðaskóla. Þemað að þessu sinni var náttúran en nemendur sköpuðu í sameiningu mismunandi heima tengda náttúrunni. Nemendur í 1. og 2. bekk bjuggu til skordýraheim, 3. og 4. bekkur útbjó sjávarheim og 5. og 6. bekkur sköpuðu fuglaheim. Nemendur sóttu efnivið í náttúruna í kringum skólann og sköpunargleðin réði ríkjum í verkefnavinnu. Alls konar litrík skordýr, fuglar sem sitja á eggjum í hreiðrum og furðufuglar litu dagsins ljós. Áður en listaverkin voru unnin skoðuðu nemendur myndbönd og fræðibækur um dýrin.

Í 7. og 8. bekk var unnið með eldgosaheima en þá var boðið uppá gönguferð að gosstöðvum í Geldinagadal. Alls fóru 42 nemendur í gönguna í fylgd kennara og nokkurra foreldra sem tóku að sér að keyra nemendum og ganga með þeim. Gangan hefur án efa verið innblástur við eldfjallagerð nemenda en þeir gerðu eldfjöll sem voru svo látin gjósa á skólalóðinni á sérstakri sýningu í lok þemadaganna. Einnig unnu nemendur kynningar um virk eldfjöll og eldgos í heiminum, máluðu listaverk af eldfjöllum og fleira.

Í 9. og 10. bekk var bátakeppnin endurvakin en það verkefni var fyrst unnið fyrir tveimur árum í Gerðaskóla. Nemendur fengu pappa og teip sem efnivið en markmiðið var að útbúa bát sem hægt væri að sigla yfir sundlaugina, með einn liðsmann um borð. Bátarnir voru margvíslegir og þoldu siglinguna misvel. Það þarf útsjónarsemi og dálitla verkfræði til þess að báturinn haldi vel og því geta nemendur lært margt af þessu ferli.

Myndirnar tala sínu máli en nemendur, kennarar og starfsfólk voru mjög ánægð með þessa skemmtilegu tilbreytingu í lok skólaársins.

Hægt er að skoða fleiri myndir hér