Sumar og sól á árshátíð Gerðaskóla

Árshátíð Gerðaskóla árið 2022 var haldin með pompi og prakt í gær, fimmtudaginn 7. apríl. Þemað í ár var Sumar og sól og lögðu nemendur og starfsfólk mikið kapp á að skapa sumarlega stemningu og kveða í sameiningu fram sumargleðina í skólann okkar..

Í ár var árshátíðin tvískipt þar sem nemendur 1. – 5. bekkjar og leikskólahópur Gefnarborgar stigu á stokk kl. 15: 00 en 6. – 10. bekkur var kl. 19. Að venju buðu nemendur og foreldrar 10. bekkjar starfsfólki í hátíðlegan kvöldverð og skemmtilega uppskerustund nemenda. 10. bekkur var svo boðinn sérstaklega velkominn á sal þar sem gestir fögnuðu þeim með lófataki.

Atriðin í voru ótrúlega flott og við erum svo stolt af hæfileikaríku nemendum Gerðaskóla sem tóku virkan þátt í undirbúningi, æfingum, gerð leikmynda og skreytinga á sal. Undirbúningur árshátíðar á unglingastigi var frekar óhefðbundin í ár með sérstakri árshátíðarlotu í Bræðingi þar sem nemendur gátu valið hóp eftir áhugasviði og tekið þátt með mismunandi hætti. Í boði voru hóparnir ljós-hljóð og mynd, leikmynd og búningar, sviðshópur og skreytingar. Nemendur lögðu sig vel fram við undirbúning og árshátíðirnar tókust ótrúlega vel. Í salnum bjuggu nemendur til fallegt sumar á Garðskaga með tilheyrandi fuglum, blómum, fiðrildum og vitum.

Við þökkum öllum gestum sem sáu sér fært að vera með okkur, það var sérstaklega ánægjulegt að sjá fullan sal af áhorfendum og gestum í skólanum. Við þökkum nemendum einnig fyrir þeirra frábæra framlag. Til hamingju með vel heppnaða árshátíð, við erum mjög stolt af ykkur öllum.