Söngstund hjá 1. – 4. bekk

Í desember er margvísleg dagskrá skipulögð í skólanum okkar og við finnum nýjar leiðir þessa dagana til þess að halda í gamlar hefðir. Á fimmtudaginn komu 1. – 4. bekkur saman á sal í tveimur hollum til þess að syngja saman jólalög og eiga góða stund. Við vorum svo heppin að fá Vigni Bergmann, tónlistarmann og fyrrum kennara í Gerðaskóla, í heimsókn en hann spilaði á gítar og söng með þeim Freydísi og Dagnýju. Það var sannkallaður jólaandi yfir skólanum meðan söngurinn ómaði og svo fengu nemendur og kennarar líka smá hreyfingu með klassískum - höfuð, herðar, hné og tær - dansi og söng. Við hlökkum til þess að eiga fleiri góðar aðventustundir saman í desember.