Rithöfundar í heimsókn.

Undanfarna daga hafa nemendur Gerðaskóla fengið rithöfunda í heimsókn.

En þau Gunnar Helgason, Gunnar Theódór og Yrsa Þöll kíktu í heimsókn og sögðu frá bókunum sínum. Þau lásu upp brot, sögðu skemmtilegar sögur úr ritstörfunum og svöruðu alls konar spurningum frá nemendum.

Gunnar Helgason kynnti nýjustu bók sína Birtingur og símabannið mikla en hér er smá brot úr bókinni;

Foreldrar Birtings eru í einhverju uppeldisátaki og ætla að taka af honum símann í sumar. Þau banna honum líka að vera í tölvunni.
Það. Er. FÁRÁNLEGT!
Svo segja þau bara glottandi að hann geti keypt sér síma sjálfur ef þetta er svona hræðilegt (sem það er)!
En það er nú varla flókið að safna fyrir einum síma?! Birtingur selur dót, safnar dósum og lýgur smá og platar smá en svo er hann nappaður! Af bekkjarsystrum hans, Aldísi og Birtu og þá fyrst fer allt í rugl!

Bráðfyndin saga sem er auðvelt að lesa en erfitt að leggja frá sér.

Gunnar Theódór og Yrsa kynntu bók sína Jólabókaormurinn, hér er smá brot úr þeirri bók;

Þið kannist við jólaköttinn en hafið þið heyrt um jólabókaorminn? Hann er nefnilega alveg jafnslæmur, nema hann étur bara þá sem fá ekki bók í jólagjöf!

Hafdís og Tómas þekkja söguna en hafa engar áhyggjur því í þorpinu gefa allir bækur. En hefur nokkur séð jólabókaorminn? Er hann til í alvörunni? Systkinin ákveða að skoða þetta nánar ...

... en með því hætta þau á að vekja upp reiði jólabókaormsins ...

Hvað gerist ef hann nær manni?

Hvað gerist ef hann étur mann?

Er sagan þá á enda ... eða kannski bara rétt að byrja?

Yrsa Þöll kynnti líka léttlestrarbækurnar Bekkurinn minn sem hún og Iðunn Anna eru höfundar af.

En hér er smá brot úr einni bókinni;

Björgum móanum!
Fjallar um Wiktoriu og besta leiksvæðið í bænum. Börnin frétta af því að það eigi að byggja risastóra blokk í miðju hverfinu. Það má ekki gerast! Þau taka höndum saman og mótmæla.

Við þökkum kærlega fyrir heimsóknina.

Hægt er að skoða myndir hér.