Netöryggi

Okkur í Gerðaskóla er annt um öryggi barnanna og því reynum við að fylgjast með hvað er að gerast í umhverfi barnanna og þá er netið ekki undanskilið. Undanfarið hefur smáforritið/appið Yellow náð töluverðum vinsældum meðal ungmenna og hefur þetta forrit núþegar komist í fréttirnar á ýmsum fréttamiðlum. Forritið er kynnt sem "vinna-app" sem er í raun yfirskyn og má frekar líkja við Tinder fyrir börn!

Líkt og á Tinder, er flett í gegnum aðra notendur sem eru merktir með "hjarta" eða "exi" eftir áhuga. Þegar tveir einstaklingar hafa "hjartað" hvorn annan fá þeir "match" og geta í framhaldinu talað saman, og sjálfkrafa tengst á Facebook og Snapchat. 

Aldurstakmark notenda Yellow er bara "tillaga" og getur því hver sem er skráð sig. Fullorðnir einstaklingar geta því stofnað til samskipta við börn með forritinu og öfugt.

Við mælum sterklega með því að forráðamenn/foreldrar kynni sér appið vel og séu vel vakandi yfir net- og símanotkun barna og sinna og gefi viðeigandi leiðsögn.

 

Til eru fjölmörg öryggisatriði sem foreldrar geta kynnt sér. Síur, lásar/lykilorð og annað slíkt eru til þess að barnið geti ekki stolist til að næla sér í öpp eða vafra um óæskileg svæði án ykkar vitneskju, en það verður auðvitað hver að meta fyrir sig. Til eru ótalmargar góðar greinar og netsvæði, til dæmis saft.is sem gefur greinagóðar leiðbeiningar um netöryggi, sem við hvetjum foreldra til að kynna sér.