Nemamót og lýðræði í Gerðaskóla

Síðastliðið vor hlaut Gerðaskóli styrk frá Sprotasjóði fyrir þróunarverkefninu Nemamót og lýðræði. en verkefninu er ætlað að innleiða og efla nemendalýðræði í skólanum. Aðaláherslur verkefnisins eru að efla starfsemi nemendafélags, þjálfa nemendur til lýðræðislegrar þátttöku í þróun skólastarfsins og veita nemendum tækifæri til þess að hafa meiri áhrif á skólasamfélagið með Nemamótum.

Í vetur taka 14 nemendur þátt í nemendaráði en það er valáfangi á unglingastigi. Nemendur sem starfa í nemendaráði fengu þjálfun í haust frá Kvan þar sem farið var yfir samvinnu, leiðtogafærni og uppbyggilega gagnrýni í teymisvinnu. Útbúin hefur verið aðstaða fyrir nemendaráðið í skólanum þar sem hægt er að vinna hugmyndavinnu og skipuleggja starfið. Verkefnið miðar einnig að því að eldri kenni yngri og því er stefnt að kynningu á nemendaráði fyrir yngri nemendur.

Fyrsta nemamót Gerðaskóla var haldið 29. og 30. nóvember en þá skoðuðu nemendur í 6. – 10. bekk starfsáætlun nemendaráðs og komu með hugmyndir að skipulagi viðburða á skólaárinu. Bekkir fengu einnig það verkefni að kynna hugmyndir sínar um viðburði á öskudegi, árshátíð, vorhátíð og íþróttadegi skólans. Hver nemandi gat svo valið þá hugmynd sem honum þótti best fyrir hvern dag. Það var áhugavert að sjá nýjar og gamlar hugmyndir koma fram og eins var áberandi að nemendur virðast ánægðir með margt í kringum skipulag þessara daga og vilja halda mörgu óbreyttu. Þátttaka í kosningum var góð og verða niðurstöður kynntar fyrir starfshópum sem standa að skipulagi viðburðanna til að taka mið af vilja nemendanna.

Það stendur til að halda annað nemamót Gerðaskóla á vorönn skólans og er þá áætlað að fara yfir samskiptaáætlun skólans til að fá endurgjöf og koma af stað umræðum með nemendum um áherslur og verklag sem þar koma fram. Áætlað er að nemamót verði haldið tvisvar á skólaári á meðan þróunarvinnan stendur yfir og mismunandi viðfangsefni verði á mótunum.