Nú eru hefðbundnir foreldrafundir í Gerðaskóla þar sem gefst tækifæri til þess að efla og styrkja samstarf skólans við foreldra og forráðamenn. Boðið var upp á erindi um stafrænt uppeldi frá Heimili og skóla en Sigurjón Gunnarsson sérfræðingur frá samtökunum hélt erindi fyrir foreldra, forráðamenn og starfsfólk skólanna. Erindin voru tvö, annars vegar út frá stafrænu uppeldi barna í 1. – 5. bekk og hins vegar í 6. – 10. bekk. Í erindi Sigurjóns kom meðal annars fram að hann mæli alls ekki með að börn hafi aðgang að samfélagsmiðlum eins og Snapchat þar sem þau hafa ekki nægilegan þroska í félagslegum samskiptum til þess að takast á við samskipti af þessu tagi. Einnnig fjallaði Sigurjón um mikilvægi samstöðu innan hópsins, það er mikill styrkur í góðu foreldrasamstarfi. Hann benti á að foreldrar og forráðamenn hafi aðgang að ráðgjöf og fræðslu frá Heimili og skóla. Á heimasíðu samtakanna er m.a. annars hægt að nálgast upplýsingar um farsældarsáttmálann sem foreldrar geta unnið saman.
Að erindinu loknu fóru fram kynningar hjá hverjum bekk þar sem ræddar voru áherslur vetrarins og það sem er framundan. Einnig var boðið uppá spjall og spurningar um námsmat og Mentor hjá Maríu deildarstjóra stoðþjónustu og skólasóknarverklag hjá Særúnu deildarstjóra fagstarfs.
Frábær mæting var á foreldrafundina og sköpuðust góðar umræður í hópunum. Við viljum þakka foreldrum og forráðamönnum hjartanlega fyrir komuna og hlökkum til samstarfsins í vetur.