Góðir gestir í Gerðaskóla

Fimmtudaginn 16. mars var eldri borgurum boðið í heimsókn í skólann. Þetta er annað árið sem þetta er gert.

Nemendur fá þá tækifæri til flytja ýmis atriði sem þeir hafa æft og fá þannig æfingu í framkomu og flutningi. Í þetta sinn fluttu nemendur tónlistaratriði sem þeir munu flytja í Salnum í Kópavogi n.k. sunnudag á Nótunni sem er uppskeruhátíð tónlistaskóla. Einnig fá nemendur okkar sem valdir hafa verið fulltrúar okkar skóla í Stóru upplestrarkeppninni tækifæri til að lesa fyrir framan nýjan hóp áheyrenda. Þeir munu svo taka þátt í keppninni sem fram fer í Grindavík 30. mars.

Að þessum atriðum loknum bjóða nemendur svo í kaffi og vöfflur sem þeir bökuðu fyrir gestina.

Þessar heimsóknir hafa heppnast mjög vel. Við í skólanum erum stolt að geta sýnt öðrum hvað við erum að gera og þökkum okkar góðu gestum fyrir að gefa sér tíma til að heimsækja okkur.