Glæsilegur árangur í stóru upplestrarkeppninni

Stóra upplestrarkeppnin var haldin með hátíðlegum blæ í Stóru-Vogaskóla, Vogum þann 28. apríl. Þrír nemendur tóku þátt fyrir hönd Gerðaskóla en einnig fluttu þau Elísa Tan-Doro-On og Ögmundur Ásgeir nemendur í 7. bekk fjórhent verk á píanó.

Keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu og taka nemendur 7. bekkja þátt í æfingum og undankeppni í sínum bekk. Þrír nemendur eru svo valdir í lið sem keppir á Stóru upplestrarkeppninni að vori. Lið Gerðaskóla í ár var skipað þeim Bjarna Degi Jónssyni, Finnbirni Þorvaldi Þorvaldssyni og Ögmundi Ásgeiri Bjarkasyni. Varamaður var Ari Freyr Magnússon.

Keppendur stóðu sig allir með stakri prýði en í ár voru nemendur Gerðaskóla á verðlaunapalli. Bjarni Dagur var í 2. sæti og Finnbjörn í 3. sæti. Það er ánægjulegt að segja frá því að allir keppendur sem unnu til verðlauna koma úr Suðurnesjabæ en Oddný Lilja Eckard, nemandi í Sandgerðisskóla hreppti 1. sætið.

Við óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn og þökkum öllum sem komu að keppninni kærlega fyrir þátttöku, þjálfun og aðstoð.