Fernuflug - viðurkenningar til nemenda

Nemendur á unglingastigi tóku þátt í Fernuflugi Mjólkursamsölunnar á haustdögum en þau sömdu ljóð í íslenskutímum, út frá spurningunni Hvað er að vera ég? Gerðaskóli sendi rúmlega 40 ljóð í samkeppnina en yfir 1.200 textar bárust frá nemendum í 8.-10. bekk um land allt. Dómnefnd valdi svo 48 texta sem verða birtir á mjólkurfernum en það er mjög ánægjulegt að segja frá því að þrír nemendur Gerðaskóla eru í þeim hópi. Ljóð Lilju Maríu Hallvarðsdóttur í 10. bekk, Mikaels Árna Ámundasonar í 10. bekk og Söru Kristínar Svansdóttur í 9. bekk munu prýða mjólkurfernur MS á næsta ári. Ljóðin hafa verið myndskreytt og birt á heimasíðu MS. Þar er hægt að skoða þau ljóð sem urðu fyrir valinu og þau sem fengu verðlaun í keppninni.

 

Lilja, Mikael og Sara fengu litla gjöf frá skólanum þegar degi íslenskrar tungu var fagnað á föstudaginn. Við óskum þeim innilega til hamingju með heiðurinn og erum mjög stolt af unglingastiginu okkar fyrir þátttökuna. Ljóðin er hægt að skoða á ljóðasýningu í skólanum og við hvetjum þau sem eiga leið til okkar að gefa sér tíma til þess að lesa þessi fjölbreyttu og skemmtilegu ljóð.