ART þjálfarar í Gerðaskóla

Síðastliðinn vetur sóttu sex fagaðilar úr Gerðaskóla réttindanámskeið hjá ART teymi Suðurlands og eru því formlega orðnir ART þjálfarar. Á meðan námskeiðinu stóð fór fram kennsla í ART í þremur árgöngum skólans og í vetur hafa nemendur í 6. bekk verið í ART þjálfun þrisvar sinnum í viku.

ART stendur fyrir Aggression Replacement Treatment en í kennslunni felst þjálfun í félagsfærni, þar sem nemendum eru kennd jákvæð samskipti í daglega lífinu. Unnið er kerfisbundið með tiltekin atriði. Þetta er gert með umræðum, hlutverkaleikjum og ýmis konar verkefnum. Í sjálfstjórn læra nemendur að bregðast við árekstrum með því að þekkja: hvað kveikir reiði þeirra, hvað gerist innra með þeim þegar þau reiðast, hvernig þau eru vön að bregðast við og hvaða afleiðingar það hefur. Þeim er kennt að rjúfa ferlið með ýmsum aðferðum og innleiða nýjar samskiptaleiðir (félagslega færni). Í siðferðitímum rökræða nemendur undir stjórn þjálfara út frá sögum (klípusögum) þar sem fyrir koma siðferðileg álitamál. Þetta eru annars vegar sögur sem tilheyra námsefninu og hins vegar sögur úr reynsluheimi barnanna sjálfra.

Þær Karen, umsjónarkennari í 1. bekk, María, deildarstjóri stoðþjónustu, Sigurbjörg og Sæunn þroskaþjálfar, Særún deildarstjóri fagstarfs og Þórunn umsjónarkennari í 6. bekk hafa mikla trú á ART sem verkfæri til þess að koma enn betur til móts við nemendur, þjálfa félagsleg samskipti og efla samkennd og tilfinningavitund.

Frekari upplýsingar um ART má finna á heimasíðu ART teymis Suðurlands: https://www.isart.is/