Afmælislistaverk Gerðaskóla

Í tilefni 150 ára afmæli Gerðaskóla voru unnin þrjú stór listaverk sem nú skreyta húsnæði og umhverfi skólans. Útilistaverk út plasttöppum prýðir nú framhlið skólans, í matsal er listaverk út frá gildum Gerðaskóla og nemendur tóku allir þátt í að skreyta tré á gangi skólans.

Tré fjölbreytileikans blómstraði á einum ganga skólans en hver nemandi skreytti hringi (laufblöð) með sínu eigin mynstri og setti á tréð. Hver bekkur fékk úthlutaðan ákveðinn lit sem mótar svo litamynstur trésins. Nemendur eru ólíkir og hafa hver sitt mynstur en eiga það þó sameiginlegt að tilheyra bekk og gefur tréð innsýn í þann fjölbreytileika.

Nemendur í 4. – 7. bekk unnu verk út frá gildum skólans; Virðing, ábyrgð, árangur, ánægja. Hvert orð var unnið með mismunandi aðferð og efniðvið. Orðið virðing var unnið úr perlum, ábyrgð var unnið úr garni, orðið árangur var málað á striga og orðið ánægja var unnið á krossviðsplötur en nemendur pússuðu, brenndu og lökkuðu viðinn. Orðin eru staðsett í matsal skólans, sýnileg nemendum og starfsfólki og eru góð áminning um þau gildi sem við höfum að leiðarljósi í skólastarfinu.

Útilistaverkið var unnið með nemendum í sjónlistum en Drífa sjónlistakennari setti af stað samkeppni meðal nemenda. Útkoman var glæsileg og voru á endanum valdar nokkrar myndir og settar saman í útilistaverk. Það var frábært að sjá að gamli vitinn var myndefni hjá mörgum nemendum, sem og sólsetrið og náttúran umhverfis skólann. Lokaútkoman er glæsilegt listaverk sem samsntendur af rúmlega 4500 plasttöppum.. Nemendur og starfsfólk skólans söfnuðu plasttöppum og fengu Garðbúa í lið með sér þar til kominn var dágott safn af plasttöppum í alls kyns litum. Við fengum svo kærkomna sendingu frá Dósasel, dósasöfnun Þroskahjálpar af töppum og sendum þeim kærar þakkir fyrir hjálpina. Það var heilmikið verk að festa tappana kirfilega við stóra plötu og hjálpuðust nemendur og starfsfólk að við þá vinnu. Við erum mjög stolt af afrakstrinum og fallegum afmælislistaverkum.